Aðalfundur Íshljóð 2020 verður haldinn á fjarfundarbúnaðinum Zoom þann 26. nóvember næstkomandi. Zoom er ókeypis og aðgengilegur öllum sem hafa boðshlekk á fund. Ef þú hefur ekki fengið upplýsingar um fundinn í tölvupósti, en villt gjarnan fá að sitja fundinn sendu þá póst á ishljod@ishljod.is

f.h. Íshljóð


Ragnar Viðarsson – Ritari stjórnar.

Í dag er Alþjóðlegur dagur hávaðavitundar (International Noise Awareness Day) sem haldinn er ár hvert. Á þessum degi er hugað að hávaða í umhverfi fólks og þeirra áhrifa sem hávaði hefur. En hvað er hávaði? Hávaði fyrir einum er tónlist fyrir annan. Í þessu má skynja skilgreininguna, en í reglugerð um hávaða er hávaði skilgreindur á eftirfarandi hátt: “Hávaði – Óæskileg eða skaðleg hljóð sem stafa m.a. frá athöfnum fólks, umferð eða atvinnustarfsemi.”

Í dag er tilvalið að huga að sínu eigin umhverfi, hvort sem það er heimili, vinnustaður, einkagarður eða almannarými, og telja upp þá hávaðavalda sem eru til staðar. Í kjölfarið er hægt að ímynda sér hvernig umhverfið væri ef hljóðmyndin, þ.e. öll hljóð sem heyrast, en einnig það sem heyrist í þögninni (því þögnin ber með sér ýmis hljóð ef vel er að gáð), væri öðruvísu og hvort það sé yfir höfuð gerlegt að breyta hljóðmyndinni.

Hávaði í umhverfi fólks er fyrir flesta eitthvað sem varir í stutta stund. Fyrir íbúa borga, getur hávaði hinsvegar verið viðvarandi. Rannsóknir sýna að slíkar aðstæður valda fólk heilsutjóni á löngum tíma. Sýnt hefur verið fram á að fólki sem býr við langvarandi hávaða er hættara við að fá hjarta og æðasjúkdóma, fá sykursýki 2 en einnig þjást af andlegum kvillum svo sem stressi og kvíða.

Fjölmargar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á tengsl hávaða, eða ófullnægjandi hljóðvistar, í umhverfi barna við þætti eins og námsörðugleika, óæskilegt atferli, stress og kvíða. Sér í lagi er góð hljóðvist mikilvæg fyrir börn á yngri stigum skólakerfisins (leik- og grunnskóli) sem ekki hafa öðlast nægan þroska til þess að takast á við hávaða-áreiti á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Börnum sem stunda nám á öðru tungumáli en sínu móðurmáli farnast einnig betur í námi ef hljóðvist er góð. Það er nefninlega gríðarlegt álag að læra nýja hluti á tungumáli sem einstaklingar hafa ekki fullt vald á. Góð hljóðvist er því eitt af því sem hægt er að huga að til þess að gera fleirum kleyft að pluma sig í námi.

Á vinnustöðum er oftar en ekki mikill hávaði sem getur verið starfseminni eðlislægur eða ekki. Þar sem hávaði er órjúfanlegur hluti starfseminnar eru starfsmenn oftar en ekki með heyrnarhlífar sér til varnar. Á öðrum stöðum þar sem hávaði er ekki eiginlegur hluti starfseminnar, eins og á skrifstofum, veldur hávaði oft einbeitingarmissi. Einbeitingarmissir getur kostað vinnuveitendur miklar fjárhæðir á löngum tíma ef starfsmenn eru sífellt að truflast við sín daglegu störf. Rannsóknir sýna að það tekur allt að 20 mínútur að ná upp þræði sem truflaður var af utanaðkomandi áreiti. Það verður augljóst að það er dýrt að hafa starfsmann sem nær ekki að sinna vinnunni á áhrifaríkann hátt vegna utanaðkomandi hljóða. Oftast er hægt að endurskipuleggja rými þannig að allir geti sinnt sinni vinnu, bæði þeir sem þurfa kannski mikið að tala í síma (og valda þar með truflun), en eins þeir sem þurfa að eibeita sér mikið við úrlausn flókinna verkefna.

Heimildir og ítarefni.
Hávaði í umhverfi og áhrif á heilsu – Skýrsla frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO)
Leiðbeiningar um hávaða í umhverfi barna af vef Umhverfisstofnunar
Áhrif utanaðkomandi tals á frammistöðu og huglæga truflun – Finnsk rannsókn
Tilfinningaleg áhrif hljóðs – Sænsk rannsókn

Ragnar Viðarsson er hljóðverkfræðingur og áhugamaður um hljóðvist í umhverfinu og áhrif þess á heilsu fólks. Ragnar er eigandi Hljóðvist Ráðgjöf & Hönnun og situr í stjórn Íshljóð.

Væntanlegir viðburðir