Af hljóði

Ólafur Hjálmarsson, verkfr.

Það er ánægjulegt að verða vitni að
vitundarvakningu um áhrif hljóðs og hávaða á lífsgæði hér á landi. Við getum
gert betur. Enn þann dag í dag er verið að gera mistök sem vönduð ráðgjöf gæti
komið í veg fyrir með tiltölulega litlum tilkostnaði.

Hljóðfræði (e. acoustics) er því
miður ekki kennd svo nokkru nemi við háskóla landsins. Því verður að breyta.
Það eru verulegir hagsmunir í húfi fyrir íslenskt samfélag að tryggja
lágmarksþekkingu á þessu fræðasviði eins og öðrum. Alþjóða heilbrigðisstofnunin
(WHO) hefur með sívaxandi þunga allar götur frá árinu 1980 verið að benda á
mikilvægi góðrar hljóðvistar fyrir heilsu okkar og líðan. Á Norðurlöndum hafa
menn af því áhyggjur að skortur verði á fagfóki með hljóðmenntun á komandi
árum. Þar gera háskólarnir þó talsvert betur en hér á landi.

Átak sveitarfélaga til að bæta
hljóðvist í leik- og grunnskólum og alltof hljómmiklum íþróttasölum er mjög
ánægjulegt. Heyrnarskerðing er útbreiddur atvinnusjúkdómur meðal kennara.
Nokkuð hefur verið rætt um raddheilsu þeirra upp á síðkastið. Af þeim sökum
vill bregða við að gerðar séu óraunhæfar kröfur til hljóðhönnunar
skólahúsnæðis. Umræðan vekur spurningar um hvort verðandi kennarar fái næga
raddþjálfun í náminu. Stór opin kennslurými sem nú tíðkast, þar sem börnin eru
í sjálfstæðri vinnu á sinni vinnustöð eins og í atvinnulifinu, kalla á nýja
kennsluhætti. Í þannig rýmum, sem verða að vera mjög hljóðdeyfð til þess að
halda hljóðstigi frá starfi barnanna í skefjum, er óskynsamlegt að reyna að ná
til allra barnanna í einu á sinni vinnustöð. Skynsamlegra er að kennari kalli
börnin til sín og hafi þau sem næst sér við fyrirlestra. Það léttir verulega
álagi á röddina. Sama á við um íþróttakennara. Það er ekkert vit í því að reyna
með órafmagnaðri röddu að reyna að ná enda á milli í íþróttasölum. Með flautu
geta íþróttakennarar kallað börnin til sín, til þess að gefa þeim fyrirmæli; ef
tala á við öll börnin í einu. Bandarísku hljóðfræðisamtökin (Acoustical Society
of America) hafa fremur mælt gegn notkun hljóðkerfa í kennslu nema þá fyrir
heyrnarskert börn. Þá er samskiptaleiðin frá kennara til nemenda rafmögnuð á
meðan tjáskiptin frá nemanda til kennara og á milli nemenda eru það ekki og því
hætta á að þau séu bæld niður. Það getur vart talist gott kennsluumhverfi.

Háværu tónleikarnir,
skemmtistaðirnir og veitingastaðirnir eru nokkuð áhyggjuefni. Þar þarf að bæta
mæliaðferðir eftirlitsaðila og herða reglur. Heyrnin er í húfi. Heyrnarfrumur
sem deyja vegna of mikils álags endurnýja sig ekki. Varanlegt heilsutjón verður
sem erfitt getur reynst að átta sig á fyrr en skaðinn er skeður. Skert heyrn er
veruleg fötlun eins og þeir vita sem reynt hafa. Hlutfall heyrnarskertra fer
stöðugt vaxandi hér á landi. Við skotveiðar ættu menn ætíð af hafa fullnægjandi
heyrnarvörn.

Mikil framför hefur orðið í reglugerðum og hljóðstöðlum á nýliðnum árum.
Því ber að fagna. Fyrir nýbyggingar eru skilgreindar lágmarkskröfur (flokkur C)
og gæðaflokkar (flokkar A og B) vilji menn gera betur en skyldan býður. Í
nokkrum verkum í Noregi en einungis í einu verki hér á landi hefur
greinarhöfundur verið beðinn að uppfylla flokk B í hljóðhönnun. Það var eigandi
Sigló hótels á Siglufirði sem hugsaði svo stórt. Vonandi fylgja fleiri í
kjölfarið. Reynslan sýnir að góð hljóðvist og þær aðgerðir sem grípa þarf til
þurfa ekki að kosta nema örfá prósent af byggingarkostnaði sé hugað að þeim
strax i upphafi. Sem dæmi má nefna að í höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar
sem kostuðu uppkomnar um 3 milljarða króna á sínum tíma var kostnaður við
hljóðaðgerðir einungis um 30 milljónir króna eða um 1% af stofnkostnaði. Þessu
fé er vel varið og það skilar sér margfalt í bættu vinnuumhverfi, betri líðan
og afköstum nemenda og starfsfólks.